Ferill 450. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 450 . mál.


Ed.

1062. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Fyrsti minni hl. nefndarinnar styður allar breytingartillögur meiri hl. við frumvarpið, sbr. nefndarálit meiri hl. Fyrsti minni hl. flytur breytingartillögu við frumvarpið á sérstöku þingskjali og er hún þess efnis að frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri verði óbreyttur frá því sem nú er, þ.e. 115.000 kr. hjá einstaklingi og 230.000 kr. hjá hjónum, en eignarhaldstíminn verði lengdur úr tveimur árum í þrjú ár. Ekki er enn komin reynsla á ákvæði laganna. Fyrsti minni hl. telur að meginmistök í upphaflegu lagasetningunni hafi ekki verið þau að frádráttur sé of mikill, heldur að ekki hafi verið gert ráð fyrir sérstökum eignarhaldstíma. Fyrsti minni hl. telur einnig að jafnmikil nauðsyn sé nú eins og þegar lögin voru samþykkt á síðasta þingi að heimild sé fyrir hendi til þess að leyfa frádrátt vegna skattskyldra tekna vegna fjárfestingar í atvinnurekstri. Telur 1. minni hl. að sú reynsla, sem fengist hefur, lofi góðu og heimildir hafa orðið til þess að auka hlutafjármarkaðinn og stuðla að hlutafjárkaupum til að auka eiginfjármyndun í fyrirtækjum. Þá telur 1. minni hl. að tilurð reglunnar hafi leitt til þess að fyrirtæki, sem hafa verið lokuð einkafyrirtæki, sjá sér hag í því að opnast og skrá sig á hlutafjármarkaði. Þá liggur það fyrir að með því að krefjast þriggja ára eignarhalds á hlutabréfum er komið í veg fyrir að menn fjárfesti í þeim einungis til að njóta þess skattahagræðis sem lögin veita.
    Fyrsti minni hl. ítrekar stuðning sinn við frumvarpið og breytingartillögur meiri hl. og leggur til að það verði samþykkt með þeim breytingum sem hann gerir tillögu um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 18. mars 1991.



Guðmundur Ágústsson,


form.